Lög félagsins

Lög

Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi, Vestmannaeyjum
 
1. grein.
Félagið heitir Skipstjóra- og stýrimannafélagið VERÐANDI, og skal eiga heimili og varnarþing í Vestmannaeyjum.
 
2. grein.
Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmuna- og launamálum skipstjóra og stýrimanna, efla samvinnu og viðkynningu þeirra á meðal og vernda rétt þeirra. Einnig vill félagið láta til sín taka hverskonar endurbætur er snerta sjávarútveg og siglingar.
 
3. grein.
Rétt til að vera félagsmenn hafa allir þeir, er öðlast hafa íslensk skipstjóra- og stýrimannaskírteni.
 
4. grein.
Hver sá, sem vill gerast félagsmaður og hefur rétt til þess, skal senda stjórninni inntökubeiðni ásamt inntökugjaldi, og skal hann þá talinn löglegur félagsmaður. Inntökubeiðni skal þá borin uppp á næsta félagsfundi. Hafi inntökubeiðnin hlotið samþykki skal hinn nýi félagi undirrita lög félagsins og skuldbindingar.
 
5. grein.
Sérhver maður, sem fær inntöku í félagið, skal breyta samkvæmt lögum þess og samþykktum.
Inntökugjald og árgjald skal ákveða á aðalfundi. Sé árgjald ekki greitt fyrir aðalfund missir félagsmaður atkvæðisrétt og hafi félagsmaður ekki greitt árgjöld fyrir tvö ár skal hann ekki teljast félagi lengur.
 
6. grein.
Félagið gefur út félagsskírteini og selur þau félagsmönnum gegn hæfilegu gjaldi, er stjórnin ákveður. Hverjum félagsmanni er skylt að kaupa félagsskírteni. Félagsskírteinið skal innihalda nafn eigenda og númer á félagaskrá og þar skal skrá greiðslu árgjalda jafnóðum og þær berast.
 
7. grein.
Aðalfundur skal haldinn í desembermánuði ár hvert.
 
8. grein.
Stjórn félagsins skal kosin til eins árs í senn og skal skipuð þremur mönnum; formanni, ritara og gjaldkera og þremur varamönnum, og getur enginn félagsmaður neitað að vera í stjórn félagsins, sé hann heimilisfastur í Vestmannaeyjum, nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Deyi aðalmaður í stjórn, forfallist eða flytji burtu, kemur varamaður í hans stað, en kjósa skal á næsta lögmætum fundi varamann, sama gildir um varamenn.
 
9. grein.
Á aðalfundi skal stungið upp á mönnum í stjórn og endurskoðendum. Fer síðan fram skrifleg atkvæðagreiðsla. Fyrst skal kjósa formann. Er sá rétt kosinn, er flest atkvæði fær, en varaformaður sá, er næst flest fær. Sama gildir um aðra stjórnarmenn. Séu atkvæði jöfn, ræður hlutkesti.
 
10. grein.
Fundi í félaginu skal boða með uppfestum auglýsingum og geta aðalmáls í auglýsingu. Fundur er löglegur, sé löglega til hans boðað.
Afl atkvæða ræður á fundum að jafnaði og hlutkesti, ef atkvæði eru jöfn.
Lögum félagsins ma´aðeins breyta á aðalfundi, þó því aðeins að breytingarnar hafi verið ræddar á einum fundi áður og þær hljóti atkvæði 2/3 fundarmanna á aðalfundi.
 
11. grein.
Stjórnin skal boða til fundar, þegar áríðandi málefni eru fyrir hendi eða minnst 10 félagsmenn óska þess.
 
12. grein.
Formaður skal stjórna fundum að undanskildum aðalfundi, en þar skal kjósa fundarstjóra, sem sér um að þeir fari vel fram, gæta þess að lögum og samþykktum félagsins sé hlýtt, hafa eftirlit með atkvæðagreiðslu og birta úrslit þeirra.
 
 
13. grein.
Ritari skal halda réttorða gerðarbók og færa inn í hana allar fundargerðir, lagabreytingar og aðalreikninga og annast auk þess allar skriftir félagsins.
 
14. grein.
Gjaldkeri annast innheimtu og greiðir ávísaða reikninga. Hann skal ávaxta fé félagsins í Íslandsbanka hf. í Vestmannaeyjum eða á annan hátt, ef öll stjórnin er sammála um það og félagsfundur samþykkir.
Gjaldkeri heldur skrá yfir félagsmenn og tilkynnir formanni, ef einhver félagsmaður greiðir ekki gjöld sín á réttum tíma. Hann skal semja reikning yfir tekjur og gjöld, eignir og skuldir félagsins og sjóða þess og leggja fram til endurskoðunar hæfilega snemma fyrir aðalfund ár hvert.
 
15. grein.
Varamenn í stjórn gegna öllum sömu störfum sem aðalmennirnir í fjarveru þeirra eða forföllum. Aðalmenn skulu skyldir til að tilkynna varamönnum forföll sín, ef unnt er.
 
16. grein.
Enginn félgasmaður getur neitað að vinna hvert það verk í þarfir félagsins, sem honum er á hendur falið, nema því aðeins að hann hafi gild forföll. Þó skal störfum jafnað milli félagsmanna eftir því sem unnt er, þannig að sami maður sé helst ekki nema í einni nefnd í einu og stjórnin fríuð við nefndarstörf, meðan aðrir hæfir menn eru til innan félagsins. Þó skal nefndum heimilt að leita álits stjórnarinnar, ef þurfa þykir.
 
17. grein.
Skylt er hverjum meðlim að stuðla að vexti og viðgangi félagsins, svo sem öflun nýrra félaga, skilvísri greiðslu félagsgjalda o.s.frv.
 
18. grein.
Hverjum þeim félagsmanni, sem fer með skipstjórn, skal að öllu jöfnu og eftir því, sem ástæður leyfa láta félagsmenn ganga fyrir utanfélagsmönnum í stýrimannsstöðu.
 
19. grein.
Hver sá félagsmaður, sem verður uppvís að því að vinna á móti hagsmunum eða stefnuskrá félagsins, skal brottrækur úr félaginu.
 
20. grein.
Úrsögn úr félaginu skal eigi tekin til greina nema hún sé skrifleg og félagsmaður skuldlaus við félagið og skal hann þá strax afhenda formanni félagsskíteini sitt.
 
21. grein.
Reikningsár félagsins er frá 1. desember til 30. nóvember.
 
22. grein.
Sérstakur fundur þarf að ákveða hvort félagið hættir starfi og verði uppleyst. Til að þær ákvarðanir teljist lögmætar þurfa 2/3 hlutar félagsmanna að vera á fundi og 2/3 þeirra samþykkja tillögu þess efnis.
Sé þátttaka ekki næg má boða til nýs fundar innan þriggja vikna og er hann ályktunarhæfur um þetta mál sé hann löglega boðaður, enda þótt fyrrgreindri fund-arþátttöku verði ekki náð.
 
23. grein.
Félagið er ópólitískt.
 
Lög þessi voru samþykkt 27. nóvember 1938, en felldar hafa verið inn í meginmál allar lagabreytingar sem gerðar hafa verið undanfarið og nú síðast á aðalfundi 29. janúar 1967.
Á aðalfundi 29. desember 1964 var samþykktur viðauki við lög félagsins sem hljóðar svo:
Fundurinn ákveður að veita gjaldkera heimild til þess að innheimta ársgjald af öllum, sem eru skráðir stýrimenn eða skipstjórar á báta frá Vestmannaeyjum og njóta samningsréttar F.F.S.Í. við L.Í.Ú., hvort sem þeir eru í Verðanda eða ein-hverju öðru félagi utan eða innan F.F.S.Í.