Formenn

Formenn Skipstjóra og Stýrimannafélagsins Verðandi frá upphafi:

 
Árni Þórarinsson. Formaður 1938 – 1945
Árni Þórarinsson, Oddsstöðum, fæddist í Mýrdal 25. maí 1896. Foreldrar hans voru Þórarinn Árnason og Elín Jónsdóttir. Árið 1908 flutti fjölskyldan til Eyja. Árni byrjaði sjómennsku sína árið 1915 á Gideon hjá Eyvindi Þórarinssyni, bróður sínum. Hann tók við formennsku á Goðafossi árið 1917 og var með hann til vertíðarloka ársins 1925. Árni var aflakóngur Vestmannaeyja 1918, 1920 og 1926. Hann lést í Kópavogi 18. janúar 1982.
 
 
Hannes Hansson. Formaður 1945 – 1947
Hannes Hannsson fæddist í Vestmannaeyjum 5. nóvember 1890. Hann ólst upp hjá hjónunum í Landakoti, Ögmundi Ögmundssyni og Vigdísi Árnadóttur. Hannes byrjaði ungur sjómennsku með Þorsteini Jónssyni frá Laufási, á Unni og hjá Sigurði Ingimundarsyni á Gnoð. Árið 1912 hóf hann formennsku á Nansen. Hannes hætti sjómennsku árið 1940 og tók að sér afgreiðslu á olíu til flotans á Básaskersbryggju. Kona Hannesar var Magnúsína Friðriksdóttir frá Gröf. Hannes lést 18. júní 1974.
 
 
Páll Þorbjörnsson. Formaður 1947 – 1948
Páll fæddist í Vatnsfirði 7. október 1906, sonur Þorbjörns Þórðarsonar, héraðslæknis og Guðrúnar Pálsdóttur. Páll stundaði sjómennsku frá 16 ára aldri og lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1930. Árið 1932 var hann ráðinn kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi alþýðu í Eyjum og gegndi hann því starfi í nokkur ár en fór síðan aftur til sjós. Þá var hann landskjörinn þingmaður á árunum 1934 til 1937 og yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1936 til 1937. Síðustu ár ævinnar stundaði hann kaupsýslustörf. Páll var skipstjóri á Skaftfellingi á stríðsárunum, 1942 til 1945 í siglingum með fisk til Englands. Áhöfnin á Skaftfellingi öðlaðist mikla frægð þegar þeir björguðu 52 manna áhöfn af þýskum kafbáti og sigldu með þá til Englands. Kona Páls var Bjarnheiður Jóna Guðmundsdóttir. Páll lést 20. febrúar 1975
 
 
Jóhann Pálsson. Formaður 1948 – 1952
Jóhann fæddist á Ísafirði 23. apríl 1909, sonur Páls Sigurðssonar og Jónínu Þórðardóttur. Hann fluttist il Eyja 18 ára að aldri og stundaði héðan sjó fram til 1963, lengst af sem skipstjóri og var nokkrum sinnum aflakóngur. Hann hóf útgerð 1952 á Hannesi lóðs og lét síðar smíða annað skip með sama nafni. Árið 1963 gerðist hann útgerðarstjóri hjá Einari Sigurðssyni. Eiginkona Jóhanns var Ósk Guðjónsdóttir frá Oddsstöðum. Þau fluttu til Reykjavíkur í gosinu 1973 og vann Jóhann um nokkurra ára skeið hjá Landsbanka Íslands. Jóhann lést 16. febrúar 2000.
 
 
Júlíus Sigurðsson. Formaður 1952 - 1955 og 1961 – 1963
Júlíus Sigurðsson frá Skjaldbreið fæddist í Vestmannaeyjum 2. júlí 1912, sonur hjónanna Sigurðar Ingimundarsonar og Hólmfríðar Jónsdóttur. Júlíus hóf ungur að stunda sjó með föður sínum sem var kunnur formaður í Eyjum. Formennsku hóf hann árið 1930 á vélbátnum Blika og var með marga báta eftir það, m.a. Þorgeir goða, Gullþóri og Má. Eftir að hann hætti sjómennsku vann hann sem vigtarmaður hjá Vinnslustöðinni. Eiginkona Júlíusar var Jakobína Jónsdóttir frá Ólafsfirði. Júlíus lést 1. október 1974.
 
 
Eyjólfur Gíslason. Formaður 1955 – 1957
Eyjólfur fæddist á Búastöðum í Vestmannaeyjum 22. maí 1897. Foreldrar hans voru Gísli Eyjólfsson frá Kirkjubæ og Guðrún Magnúsdóttir úr Landeyjum. Eyjólfur hóf formennsku á mb. Unni 1919 og var yfir 40 ár sem formaður á bátum úr Eyjum. Lengst af á Emmu VE 219 og formennskuna endaði hann á Ísleifi gamla, VE 63 árið 1962. Eyjólfur hafði gífurlegan áhuga á sögu Vestmannaeyja og átti stóran þátt í sögu Byggðasafnsins. Þá skrifaði hann mikið um sögu Eyja, ekki síst það er sneri að sjónum. Margar greinar eru varðveittar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja eftir hann. Eyjólfur, sem ávallt var kenndur við hús sitt, Bessastaði, var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Margrét Runólfsdóttir en seinni kona hans var Guðrún Brandsdóttir. Eyjólfur lést 7. júní 1995.
 
 
Sigurgeir Ólafsson. Formaður 1957 – 1959
Sigurgeir fæddist á Viðivöllum í Vestmannaeyjum 21. júní 1925. Foreldrar hans voru Ólafur Ingileifsson og Guðfinna Jónsdóttir. Hann var oftast kenndur við æskuheimili sitt og kallaður Siggi Vídó. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1950 og var upp frá því skipstjóri, bæði hjá öðrum og 1959 á eigin útgerð á Lunda VE. Sigurgeir gerði út þrjú skip sem öll báru Lundanafnið en hætti í útgerð 1974. Hann vann um tíma við Vestmannaeyjahöfn, varð hafnarstjóri 1982 og gegndi því starfi til 1991. Hann sat í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var forseti bæjarstjórnar 1982 til 1984. Þá var hann og formaður Íþróttafélagsins Þórs. Hann var kvæntur Erlu Eiríksdóttur. Sigurgeir lést 2. ágúst 2000.
 
 
Kristinn Pálsson. Formaður 1959 – 1961
Kristinn fæddist í Vestmannaeyjum 20. ágúst 1926. Foreldrar hans voru Páll Sigurgeir Jónasson og Þorsteina Jóhannsdóttir í Þingholti. Kristinn lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1948 og stundaði sjómennsku lengst af sinni starfsævi, lengst af sem skipstjóri. Hann hóf útgerð 1948 með föður sínum en keypti 1956 Berg VE 44 og var hluthafi í útgerðarfyrirtækinu Berg-Hugin hf. Eftir að Kristinn hætti á sjónum stjórnaði hann fyrirtækjum sínum en tók jafnframt að sér formennsku í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja auk þess sem hann var lengi í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja. Kristinn var kvæntur Þóru Magnúsdóttur. Kristinn lést 4. október árið 2000.
 
 
Friðrik Ásmundsson. Formaður 1963 – 1965
Friðrik fæddist í Vestmannaeyjum 26. nóvember 1934. Foreldrar hans voru Ásmundur Friðriksson og Elísa Pálsdóttir. Hann lauk prófi frá farmannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík 1957. Var lengi skipstjóri á bátum Fiskiðjunnar. Hóf útgerð, ásamt fleirum árið 1972 á Sigurði Gísla VE en hætti í útgerð 1974. Árið 1975 tók hann við skólastjórn í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum og gegndi því starfi þar til skólinn var sameinaður Framhaldsskólanum 1999. Friðrik hefur verið ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja frá árinu 2000. Eiginkona hans er Valgerður Erla Óskarsdóttir.
 
Steingrímur Arnar. Formaður 1965 – 1967
Steingrímur Arnar var fæddur á Siglufirði 19. júlí árið 1930. Foreldrar hans voru Friðvin Jóakimsson og Jóhanna Pétursdóttir. Steingrímur lauk hinu minna fiskimannaprófi 1958 og prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1964. Hann byrjaði til sjós 1948 og var sjómaður til ársins 1966, fyrst frá Siglufirði á Dagnýju SI 7 en lengst af stýrimaður frá Eyjum, lengst með Helga Bergvinssyni á Stíganda VE. Steingrímur var einnig með vélstjórnarréttindi og var formaður Vélstjórafélags Vestmannaeyja 1954 og 1958. Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja var hann 1976 og 1977. Hann var kennari við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum frá upphafi skólans 1964, fram til 1973 og prófdómari eftir það. Hann vann frá árinu 1966 hjá Flugmálastjórn sem flugvallarstjóri í Vestmannaeyjum og síðustu árin sem yfirflugvallarstjóri í Suðurlandskjördæmi. Kona hans var Eygló Einarsdóttir frá Vestmannaeyjum. Steingrímur lést 20. maí1980.
 
Sigurður Gunnarsson. Formaður 1967 – 1969
Sigurður fæddist í Flatey á Skjálfanda 27. september 1928. Foreldrar hans voru Gunnar Guðnason og Kristín Gísladóttir. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1954, fluttist til Eyja og var skipstjóri hjá öðrum og á eigin útvegi. Hann keypti Sæunni VE árið 1966 og gerði hana út til 1974.
Eiginkona Sigurðar er Jóna Guðmundsdóttir.
 
 
Guðjón Pálsson. Formaður 1969 – 1971
Guðjón fæddist í Reykjavík 10. maí 1936. Lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1957, fluttist til Eyja og stundaði sjó hér. Hann hóf útgerð með öðrum árið 1970 á Gullbergi VE og síðan á stærra skipi með sama nafni. Hann var aflakóngur í Eyjum frá 1975 til 1981 á Gullbergi. Eiginkona hans var Elínborg Jónsdóttir frá Laufási. Guðjón lést 20. nóvember árið 1987.
 
 
Kristinn Þórir Sigurðsson. Formaður 1971 – 1973
Kristinn er fæddur í Vestmannaeyjum 31. maí 1948 sonur Sigurðar Y. Kristinssonar frá Löndum og konu hans, Guðbjargar Bergmundsdóttur. Kristinn byrjaði til sjós árið  1965 á Gullbergi NS með Guðjóni Pálssyni. Hann lauk 2. stigi Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 1969 og farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1970. Var eftir það stýrimaður hjá Herði Jónssyni á Andvara og Hrönn VE til ársins 1974. Kristinn flutti ekki aftur til Eyja eftir gos en settist að í Hafnarfirði. Hann lærði smíðar og starfaði við þá grein allt fram til ársins 2000. Þá var hann ráðinn umsjónarmaður í Hafnarborg, lista- og menningarmiðstöð Hafnarfjarðar, þar sem hann starfar enn. Eiginkona Kristins er Ásta Úlfarsdóttir.
 
 
Óskar Þórarinsson. Formaður 1973 – 1975.
Óskar er fæddur 24. maí 1940 í Vestmannaeyjum, sonur Þórarins Guðmundssonar frá Háeyri og Elísabetar Guðbjörnsdóttur. Óskar byrjaði sína sjómennsku á Gullborgu VE árið 1955. Hann lauk stýrimannaprófi árið 1960 og byrjaði skipstjórn vorið 1966 á Jóni Stefánssyni VE. Hann hóf útgerð árið 1975 er hann keypti Frá VE af Fiskiðjunni og gerir enn út bát með því nafni. Óskar hefur setið í stjórn Útvegsbændafélags Vestmannaeyja undanfarin ár. Eiginkona hans er Ingibjörg J. Andersen.
 
 
Steingrímur Sigurðsson. Formaður 1975 – 1976
Steingrímur Dalmann Sigurðsson fæddist á Siglufirði 4. janúar 1942 og voru foreldrar hans Sigurður Jakobsson og Þórhalla Hjálmarsdóttir, Dalabæ á Siglufirði. Steingrímur byrjaði til sjós 1957 á nýsköpunartogaranum Hafliða frá Siglufirði. Flutti til Vestmannaeyja 1960, var á Jóni Stefánssyni VE og síðan á Gjafari VE 300 til ársloka 1965. Steingrímur lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1964. Árið 1967 fór hann í útgerð ásamt fleirum á Norðra VE 177 fram til 1970. Var skipstjóri hjá Hraðfrystistöðinni og síðar Ísfélagi Vestmannaeyja frá 1976 til 1995, lengst af á Bjarnarey VE 501. Steingrímur hefur starfað sem skipaskoðunarmaður hjá Siglingastofnun Íslands frá 1998 og hjá Skipaskoðun Íslands frá 2004. Eiginkona hans er Guðlaug Ólafsdóttir.
 
 
Gunnlaugur Ólafsson. Formaður 1976 – 1977
Gunnlaugur fæddist í Þykkvabæ, Rangárvallasýslu 6. ágúst 1946. Foreldrar hans voru Ólafur Markús Guðjónsson og Svava Guðmundsdóttir. Hann ólst upp á Ísafirði og byrjaði þar til sjós, 14 ára gamall. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1968 og settist að í Vestmannaeyjum. Árið 1977 hóf hann útgerð á Gandí VE, 1985 eignaðist hann nýtt skip með sama nafni og 1999 þriðja skipið með því nafni. Hann sat í varastjórn og stjórn Vinnslustöðvarinnar frá árinu 2000 til dauðadags. Hann var kvæntur Kristínu Elínu Gísladóttur. Gunnlaugur lést 16. apríl árið 2005.
 
 
Logi Snædal Jónsson. Formaður 1977 – 1981
Logi fæddist í Reykjavík 21. júlí 1948 og voru foreldrar hans Jón Evert Sigurvinsson og Helga Steinunn Hansen Guðmundsdóttir. Hann byrjaði sína sjómennsku á Þormóði Goða á saltfiskveiðum við Grænland, árið 1962 og var á togurum til 1965 en flutti þá til Vestmannaeyja. Hann lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1969 og var stýrimaður fram til ársins 1976 er hann tók við skipstjórn á Surtsey VE. Skipstjóri á Smáey VE 144 var hann frá 1982 til 1996. Auk starfa fyrir Verðandi sat hann í stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Logi var kvæntur Höllu Jónínu Guðnadóttur. Logi lést 15. október 1996.
 
 
Árni Magnússon. Formaður 1981 – 1982
Árni er fæddur í Reykjavík 25. desember 1937 og voru foreldrar hans magnús Guðmundsson, sjómaður frá Árneshreppi á Ströndum og Þórdís Árnadóttir frá Þverhamri í Breiðdal. Árni hóf sjómennsku á unga aldri, lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1962 og var stýrimaður á togaraflotanum, flutti til Eyja 1972, var stýrimaður á Breka og síðan skipstjóri á Ver VE frá 1973 til 1979. Flutti frá Eyjum 1981, starfaði sem verkstjóri hjá BÚR og síðan hjá Granda hf. til starfsloka 2003. Árni er kvæntur Móeiði Marín Þorláksdóttur.
 
 
Kristján Adolfsson. Formaður 1982 – 1984
Kristján er fæddur í Vestmannaeyjum 14. apríl 1949, sonur Adolfs Magnússonar og Þorgerðar Sigríðar Jónsdóttur. Hann hóf sína sjómennsku á Ingþóri VE árið 1965 og stundaði sjó frá Eyjum um árabil. Hann lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1971 og var skipstjóri á Magnúsi Magnússyni VE gosvertíðina 1973. Kristján skipti yfir á togarana 1977, sem fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri, lengst af á Klakki VE. Hann hætti sjómennsku 1988 og flutti frá Eyjum. Hóf rekstur sendibíls það ár og var stjórnarmaður á Sendibílastöð Kópavogs í fimm ár. Kristján var í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins á árunum 1983 til 1985. Eiginkona hans er Guðríður Óskarsdóttir frá Patreksfirði.
 
 
Guðmundur Sveinbjörnsson. Formaður 1984 – 1988
Guðmundur fæddist á Geithálsi í Vestmannaeyjum, 21. janúar 1945. Foreldrar hans voru Sveinbjörn Hjartarson, skipstjóri og útgerðarmaður og kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir. Guðmundur hóf sjómennsku sína á Frigg VE 316 árið 1960. Hann lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1966. Hann var áfram á Frigg til 1972, var síðan á ýmsum skipum frá Vestmannaeyjum fram til ársins 2000 en tók þá við skipstjórn á Ásgrími Halldórssyni SF Hornafirði og síðan Jónu Eðvalds SF, frá árinu 2006. Eiginkona Guðmundar er Jóhanna Gísladóttir.
 
 
Sveinn Rúnar Valgeirsson Formaður 1988 – 1990
Sveinn er fæddur í Reykjavík 5. október 1951, sonur Valgeirs Sveinssonar og Guðnýjar Gísladóttur. Hann byrjaði tíu ára að róa með föður sínum á sumrin en sextán ára hóf hann sjómennsku sína á Magnúsi Ólafssyni GK. Til Vestmannaeyja flutti hann 1969. Lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1974 og var síðan aðallega á bátum Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja og síðar Ísfélagsins. Árið 1992 keypti hann, ásamt Sævari Brynjólfssyni, Suðurey VE og gerðu þeir bátinn út til vorsins 2003 undir nafninu Byr VE. Haustið 2005 tók Sveinn við skipstjórn á Lóðsinum. Sveinn sat tvö kjörtímabil í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins, átti sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja eitt kjörtímabil og var formaður hafnarstjórnar frá 1990 til 1998. Eiginkona Sveins er Þóra Guðjónsdóttir.
 
 
Jón Bondó Pálsson. Formaður 1990 – 1994
Jón Bondó er fæddur í Vestmannaeyjum 18. júní 1934, sonur Páls Eyjólfssonar og Fannýjar Guðjónsdóttur. Hann byrjaði sína sjómennsku árið 1948 á Kap VE og var á mörgum skipum í Eyjaflotanum. Hann lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1972 og starfaði eftir það sem stýrimaður og skipstjóri. M.a. var hann um tólf ára skeið stýrimaður erlendis á dráttarbátum í sambandi við olíuvinnslu. Hann hætti sjómennsku sextugur að aldri og hefur sl. ár leiðbeint eldri borgurum í Reykjavík í félagsmiðstöðinni að Aflagranda. Sambýliskona Jóns Bondós er Hulda R. Emilsdóttir.
 
 
Sigurbjörn Árnason. Formaður 1994 – 1997
Sigurbjörn fæddist í Vestmannaeyjum 3. maí 1962, sonur Þórsteinu Pálsdóttur og Árna Sigurbjörnssonar en fósturfaðir hans er Þórður Karlsson. Hann byrjaði sjómennsku árið 1979 á Berg VE 44 með frændum sínum, Sævald og Kristni Pálssonum. Sigurbjörn lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1984. Hann var um átta ára skeið á Klakk VE og hefur verið stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Eyjaflotanum, m.a. Vestmannaey og Heimaey. Hann er núna stýrimaður á Hugin VE 55. Eiginkona Sigurbjörns er Edda Ingibjörg Daníelsdóttir.
 
 
Magnús Örn Guðmundsson. Formaður 1997 – 2002
Magnús fæddist í Reykjavík 7. desember 1956, sonur Guðmundar J. Magnússonar og Önnu Sigurlínu Steingrímsdóttur. Hann byrjaði til sjós á síðutogaranum Hjörleifi RE árið 1974, fluttist til Vestmannaeyja sama ár og reri á Valdimar Sveinssyni VE. Magnús lauk prófi 2. stigs frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1986 og hefur síðan starfað að mestu hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og síðar Ísfélagi Vestmannaeyja. Var skipstjóri á Bergey VE frá 1992 til 2002, stýrimaður og skipstjóri á Snorra Sturlusyni frá 2002 til 2008 og vann sumarið 2008 sem stýrimaður og skipstjóri á Lóðsinum. Þá hefur hann átt sæti í sjómannadagsráði undanfarin ár. Magnús er kvæntur Sigrúnu Hjörleifsdóttur.
 
 
Bergur Páll Kristinsson. Formaður frá 2002
Bergur Páll er fæddur í Vestmannaeyjum, 6. janúar 1960, sonur Kristins Pálssonar, útgerðarmanns og Þóru Magnúsdóttur, hjúkrunarfræðings. Kristinn og Bergur Páll eru einu feðgarnir sem verið hafa formenn Verðandi. Bergur Páll hóf sjómennsku sína árið 1975 á Vestmannaey VE 54 og var á skipum Bergs-Hugins í 17 ár, átta ár hjá Stíganda og í sjö ár á Herjólfi. Hann lauk 2. stigi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1980 og 3. stigi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 2001. Hann er kvæntur Huldu Karen Róbertsdóttur, kennara.